Ólöf Ríkarðsdóttir – Minningarorð

Í dag kveður Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra einn frumkvöðla samtakanna, Ólöfu Ríkarðsdóttur. Ólöf var einn stofnfélaga fyrsta Sjálfsbjargarfélagsins og æ síðan var hún ötul baráttukona fyrir réttindum og hagsmunum fatlaðra.

Hún gegndi í áranna rás fjölmörgum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum innan okkar samtaka, auk þess að starfa á skrifstofu okkar í áraraðir, m.a. sem félagsmálafulltrúi. Ólöf kom víða við í málefnastarfi fatlaðra. Hún vann að og var ein af stofnendum Öryrkjabandalags Íslands fyrir hönd Sjálfsbjargar og starfaði að ýmsum málefnum á þeirra vegum.

Tvisvar gegndi hún embætti formanns ÖBÍ, árin 1973 til 1975 og aftur árin 1993 til 1997. Ólöf var ekki aðeins ötul við að benda á það sem betur mætti fara hvað varðar aðgengi fyrir alla, kjör lífeyrisþega auk annara mála sem lengi hafa verið efst á baugi. Ekki síður mikilvægt var að stuðla að viðhorfsbreytingu. Í stuttu viðtali við Morgunblaðið kemur eftirfarandi fram ; Ólöf Ríkharðsdóttir hefur orðið áþreifanlega vör við breytingu á framkomu fólks frá því var er hún gekk um við tvo stafi og til þess er hún nú þarf að nota hjólastól. „Ef einhver er með viðkomandi t.d. er talað við hann yfir höfuð þess sem situr í hjólastólnum og það er talað um þann í hjólastólnum í þriðju persónu, rétt eins og hann sé óviti eða geti ekki talað,” sagði Ólöf. Á þetta þurfti svo sannarlega að minna á þarna og jafnvel svo enn í dag.

Við sem erum í hagsmunabaráttunni í dag stöndum í mikilli þakkarskuld við Ólöfu sem og aðra frumherja sem unnu ötullega að bættri stöðu fatlaðra í samfélaginu. Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra sendir ættingjum Ólafar, vinum og fyrrum samstarfsmönnum og samherjum í baráttu fatlaðra innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning þessarar mætu konu og frumherja.
Bergur Þorri Benjamínsson Formaður Sjálfsbjargar lsh.