BUSL er samstarfsverkefni Sjálfsbjargar og Rauða krossins í Reykjavík og er fyrir hreyfihamlaða unglinga. Félagsstarfið fer fram aðra hverja viku frá kl. 19.30 til kl. 22.00 og er opið öllum hreyfihömluðum unglingum á aldrinum 13 til 17 ára.

Verkefnið er unnið út frá hugmyndafræði sem kallast “Adventure Therapy”  (isl. Ævintýrameðferð). Rauði krossinn kýs að nota orðið ævintýraferðir í þessu samhengi en ævintýraferðir eru skilgreindar sem aðferð sem skapa tækifæri til að skoða og reyna á þolmörk hvers og eins í ókunnugu umhverfi í ævintýralegum ferðum eða athöfnum í öruggu umhverfi.

Þátttakendur taka þátt í traust-leikjum, leysa úr þrautum sem krefjast samvinnu og útivistar. Jafnframt telja sumir að betri árangur náist í ævintýraferðum ef þátttakendur upplifa sálræna og/eða líkamlega hættu sem þá eykur áskorunina á bak við atburðinn. Rannsóknir sýna að árangurinn af þessari aðferð sé aukið sjálfstraust og sjálfsmat, vilji til samvinnu eykst, lausnarmiðuð nálgun styrkist og félagshæfni einstaklinga eflist. Það að reyna á persónuleg þolmörk og fara út fyrir eigið þægindasvið getur haft þau áhrif að viðkomandi horfir með jákvæðari ljósi á líf sitt og getu.

Starfsemin fer fram á stöðum sem velmetnir hópar nýta og lögð er áhersla á að framkoma og tungutak einkennist af virðingu við bæði sjálfboðaliða og þjónustuþega. Í félagsstarfi BUSL fá unglingarnir tækifæri til að hittast og skemmta sér í góðum félagsskap. Lögð er áhersla á félagslegt frumkvæði og byggist starfið á áhugamálum þátttakenda hverju sinni.

Í félagsstarfinu er jafnframt lögð áhersla á að allir komi inn í þetta starf á jafnréttisgrundvelli. Við sjáum um að þátttakendur fái þá aðstoð sem þeir þurfa og því geta þátttakendur komið án þess að taka með sér foreldra eða liðveislu.

Starfið er skipulagt þannig að uppákomur eru á tveggja vikna fresti yfir vetrartímann og vinna leiðbeinendur og BUSL-arar saman að dagskrá fyrir hverja önn.

Leiðbeinendur í BUSL þurfa að vera 18 ára og yfir.

Verkefnastjóri BUSL er Leifur Leifsson, leifur.leifsson (hjá) reykjavik.is.