Ferli- og farartækjamál ,,Svo flýgur hver sem hann er fiðraður”
Það verður að teljast grundvallaratriði að umhverfið sé skipulagt með þarfir allra þegna þjóðfélagsins í huga.
Helstu stefnumið Sjálfsbjargar í ferlimálum eru eftirfarandi:
- Tryggt verði í löggjöf landsins að allar byggingar og mannvirki verði aðgengilegar öllum.
- Unnið verði að því á skipulegan hátt að gera allar eldri byggingar aðgengilegar öllum.
- Unnið verði skipulega að breytingu gatnakerfis og útivistarsvæða bæjar- og sveitarfélaga og þau gerð öllum aðgengileg.
- Tryggt verði aðgengi hreyfihamlaðra að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum landsins.
- Unnið verði að því að ná fram breytingum á almennigsvögnum og öðrum samgöngutækjum, hótelum og ferða miðstöðvum til að auðvelda fötluðum ferðalög. * Komið verði upp ferðaþjónustu fyrir fatlaða í öllum sveitarfélögum landsins.
- Jafnframt verði tryggt að þjónusta leigubifreiðastöðva sé fyrir alla, þar á meðal fatlaða í hjólastólum.
- Fötluðum verði bættur sá umframkostnaður er óhjákvæmilega fylgir ferðalögum þeirra, hvort heldur er innanlands eða utan.
Helstu stefnumið Sjálfsbjargar í farartækjamálum eru eftirfarandi:
- Tryggja verður að fötluðum sé gert kleift að eignast og reka eigin bifreið án tillits til efnahags.
- Tryggt verði í lögum að styrkir Tryggingastofnunar ríkisins til bifreiðakaupa hækki í samræmi við verðhækkanir bifreiða.
- Styrkir Tryggingastofnunar ríkisins til bifreiðakaupa þeirra er þurfa sérinnréttaðar bifreiðar séu ávallt það háir að vikomandi einstaklingur greiði ekki meira en sem nemur tveimur þriðju af verði bifreiðar í meðal verðflokki.
- Almennir styrkir til bifreiðakaupa nemi að minnsta kosti þriðjungi kaupverðs bifreiðar í meðal verðflokki.
- Styrkir til þeirra, sem kaupa bifreið í fyrsta sinn, skulu vera það háir að viðkomandi einstaklingur greiði ekki meira en sem nemur einum þriðja af verði bifreiðar í meðal verðflokki.