Ársverkefni Sjálfsbjargar 2019

Á Landsfundi Sjálfsbjargar 2016 var samþykkt að fara af stað með sérstök ársverkefni samtakanna og færi það fyrsta fram 2017. Hverju sinni væri tekið fyrir afmarkað verkefni er tengdist aðgengismálum hreyfihamlaðra. Markmið verkefnanna er að vekja athygli á aðgengismálum okkar fólks. Jafnframt fengju aðildarfélögin sameiginlegt verkefni til að vinna að og gæti þar með virkjað sitt fólk til að vinna að verkefninu. Skrifstofan mun undirbúa verkefnin og halda utan um þau. Samþykkt var að fyrsta ársverkefni sem kom til framkvæmda 2017 væri tileinkað aðgengi að sundlaugum og gekk það mjög vel (sjá Ársverkefni 2017). Næsta verkefni var 2018 úttekt á aðgengi safna og má finna lýsingu á því undir Ársverkefni 2018.

Ársverkefnið 2019 er úttekt að aðgengi í leikskólum, undir þemanu Leikskólar okkar ALLRA!

Ársverkefnið 2019 – Leikskólar okkar ALLRA!

 

Undirbúningur verkefnisins hófst á vordögum. Útbúið var sérstakt vinnuhefti sem aðildarfélögin notuðu við úttektirnar bæði í word og pdf  formi.

Heftið var prentað, kynnt og dreift til aðildarfélaga á Landsfundinum 2019. Í vinnuheftinu er framkvæmd verkefnisins lýst og síðan er gátlisti sem úttektaraðilar hafa með sér við úttektina og fylla út. Úttektin er hugsuð sem notendaúttekt og var lagt upp með að aðildarfélögin ákveði sjálf hversu marga leikskóla þau taka út á sínu starfssvæði. Lagt er upp með að þrír einstaklingar (Sjálfsbjargarfélagar) myndi úttektarteymi og fylgi gátlistanum eftir við úttektina (geta verið færri en óþarfi að séu fleiri). Þó æskilegt sé að einn úttektaraðila notist við hjólastól er það ekki skilyrði, meðan fólk þekkir vel til aðgengisskilyrða. Niðurstöður eru svo sendar skrifstofu samtakanna sem vinna sameiginlegt yfirlit yfir leikskóla sem eru tekin eru út og kynni niðurstöður.