Stefán Jónsson og gervifæturnir

,,Þrjár kynslóðir hafa smíðað mér gervifætur. – Í tuttugu og sex ár hef ég gengið á sjö gervifótum samtals, einum úr pappa, einum úr leðri, tveimur úr alúmíni og þremur úr tré. Auk eigin reynslu hef ég aflað mér fróðleiks af munni nokkurra einfætlinga annarra. …

Fyrstu fræðslu mína um fætur þessa fékk ég hjá Guðmundi Thoroddsen prófessor. Hann leit inn til mín síðdegis, rétt eftir að ég raknaði við úr svæfingunni og sagði: ,,Nú eru þeir farnir að smíða gervifætur, sem menn geta skautað á.”
Svo góðir gervifætur hélt ég að hlytu að vera enn á tilraunastigi, en þegar ég spurði Pétur Jakobsson lækni á næsta stofugangi, þá sagði hann: ,,Skautað? Já, blessaður vertu og dansað líka.”

Þetta fannst mér góðar fréttir, því að ég kunni hvorugt áður.”

Stefán átti eftir að komast að raun um að enginn þeirra sjö fóta sem hann fékk tryggði honum kunnáttu í danslist eða skautaiðkun. Þeir höfðu þó sumir hverjir einhverja kosti, sívala pappalöppin með gifsvafningunum sem læknarnir á Landspítalanum gerðu handa honum hafði sína kosti: ,,Enginn gervifótur jafnast á við þess háttar staurlöpp í hálu fjörugrjóti á sjófuglaskyttiríi, og hækjan ein tekur henni fram í ófærð” en hins vegar meiddi fóturinn Stefán og það gerði fyrsti sænski álfóturinn einnig: ,,Víst reyndist þetta merkilegur fótur. Sveiflan fram og aftur var svo létt og eðlileg, að mér tókst aldrei að stæla hana fullkomlega með heila fætinum. Þó hefði ég sennilega getað fengið lítið haltur á þessum fæti, ef hann hefði ekki meitt mig. … Sænski alúmínfóturinn var ekki nema þriðjungur af þyngd gömlu leðurlapparinnar, en hafði heldur ekki til að bera sama styrkleika og hún.
Ekki vil ég kasta rýrð á sænska stálið, en sænskt alúmín reyndist mér sem sagt ekki nema í meðallagi. Nýi fóturinn brotnaði bæði oft og illa og þar með hófust löng, sérstæð og mjög persónuleg kynni mín af Landssmiðjunni, er stáltaði þá af beztu alúmín – suðumönnum á gjörvöllu Íslandi.”

ak2gervilima

Mynd: Þessi mynd tengist frásögn Stefáns ekki beint en hér er þó væntanlega um skárri fætur að ræða en um getur í greininni og sá sem á heldur er Arnór Halldórsson gervilimasmiður og er myndin frá því um 1960

Síðar fékk Stefán betri gervifætur, en þó engan sem tryggði honum dans- eða skautaiðkun og niðurstaða hans var sú að um alþjóðlega tilskipun til lækna væri að ræða: ,, … ég spurði James Cockran, skozkan togaramann frá Aberdeen, sem missti fót í vírana á Doggerbanka árið 1939, hvernig læknarnir heima hefðu hughreyst hann. ,,Þeir sögðu, að nú væri þeir farnir að smíða gervifætur, sem menn gætu skautað á,” sagði hann.
Sömu spurningu lagði ég fyrir jafnaldra minn, Georges Mykaranaike frá Ceylon, sem missti fót í viðarhöggi: ,,Þeir sögðu að ég gæti farið á hjólaskautum á nýja fætinum.” Afbrigðið með hjólaskautana stafar vitaskuld af loftslaginu á Ceylon [Sri Lanka].”