Söngvar og kveðskapur

Kveðskapur, ljóð og söngvar var hluti af félagsstarfi Sjálfsbjargar fyrstu áratugina. Margir hagyrðingar og tónlistarfólk hafa ort og samið lög sem geymst hafa og sum fest í sessi við ákveðnar aðstæður. Við ýmis tækifæri hafa ljóð og litlar vísur orðið til og verður hér rakinn hluti af þessum sjóði.

Söngur Sjálfsbjargar

eftir Báru Jónsdóttur

Víst skal gleðast vinur góður
völdu marki er náð í dag
herðið lífsins hörkuróður
hefjið söng með gleðibrag
látið fánann aldrei falla
fetið djörf hvert gengið spor
sigrið erfiðleika alla
sýnið djörfung, þrek og þor.

Þó að þrautir bakið beygi
þó að bugast vilji, mund og sál
þó svo langt sem augað eygi
örðug leiðin grýtt og hál
þá má aldrei tapa trúnni
treystið bönd ei slakið hót
horfið hugdjörf beint af brúnni
beinið augum sólu mót.

Eldri söngur Sjálfsbjargar

ljóð eftir Ásgeir Ingvarsson
lag eftir Sigursvein D. Kristinsson

Þessi söngur er ekki lengur sunginn. Vera kann að sú staðreynd að hann er í moll en ekki dúr hafi haft þar áhrif.

Rofin er hula húms og skugga,
hafinn er dagur nýr,
dagur lífs og ljúfra anna,
langur, bjartur og hlýr.
Förum saman fram til starfa,
fyllum hópinn stóra, djarfa.
Vaknandi lífstrú einn og alla
að einu marki knýr.

Er ekki líkt og haltur hafi
hækju á eldinn fleygt,
eða blindur gæfugull
í götu sinni eygt,
við að skapa verk til þarfa,
vinna, nema, lifa, starfa,
við að hafa í vinarbrjósti
vonarloga kveikt.

Nálaraugað

Í fyrsta riti Sjálfsbjargar er ljóð eftir S. E. A. sem lýsir vel þeim vangaveltum sem eflaust hafa leitað á huga sumra frumkvöðlanna.

Hlustaðu á sólaruppkomuna
hlustaðu bróðir
á hróp þinna bræðra
utanaðkomandi sos óþarft
þetta ert þú og ég

veldu sjálfið
veröld með hverfulum breytileika
samvizka á fjallstindi
köntuð kúla í sívalning

líkamlega frjálsi maður

komdu vinur til hjálpar
barátta vor er þörf
komandi og verandi kynslóða
ekkert er oss ómáttugt
sé samstarfið sterkt

vinsemd og hvatning
oss kemur til starfa
og sjálfsbjargar.

Á einu af fyrstu þingum Sjálfsbjargar, sem haldið var á Ísafirði árið 1962 orti Karl Friðriksson frá Akureyri eftirfarandi stöku:

Á sambandsþingi Sjálfsbjargar
fer saman gleði og vinna.
Mér fannst enginn yrði þar,
eftirbátur hinna.

Mitt faðirvor

Árni Björnsson tónskáld og Kristján frá Djúpalæk leggja saman í þessu ljóði og lagi sem birt eru  með nótum á ári fatlaðra í tímarit Sjálfsbjargar.

Ef öndvert allt þér gengur
og undan halla fer,
skal sókn í huga hafin
og hún mun bjarga þér.
Við getum eigin ævi
í óskafarveg leitt
og vaxið hverjum vanda,
sé vilja beitt.

Hvar einn leit naktar auðnir,
sér annar blómaskrúð.
Það verður, sem þú væntir,
það vex, sem að er hlúð.
Þú rækta rósir vona
í reit þíns hjarta skalt,
og búast við því bezta
þó blási kalt.

Þó örlög öllum væru
á ókunn bókfell skráð,
það næst úr nornahöndum
sem nógu heitt er þráð.
Ég endurtek í anda
þrjú orð við hvert mitt spor:
Fegurð, gleði, friður –
mitt faðirvor.

Hugleiðingar á alþjóðadegi fatlaðra 1966

eftir Egil Halldórsson

Ei látum anda og limi stirðna,
lifum okkur inn í starfið.
Til framrásar skal fast við spyrna;
forðumst lengst af, – afturhvarfið.

….

Örugg göngum enn að verki,
ákveðin og skjót til svara.
Fast við styðjum frelsismerki,
til framfara og betri kjara

Um líf mitt

Ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk

Líf mitt hefur löngum verið
lítilsháttar öðru vísi,
heldur en það hafa vildi.
Hryggð það veldur mér.
Sérstaklega af því að
ekki skyldi vera það,
öðruvísi öðruvísi
en það er.