Jafnréttisgangan 1978

Jafnréttisgangan 19. september 1978 var einstakur viðburður sem fór fram úr björtustu vonum þeirra sem að henni stóðu. Aðdragandinn var ekki langur, þann 10. júlí var skipuð nefnd á vegum Sjálfbjargar sem átti að ræða málefni fatlaðra við nýkjörna borgarstjórn. Sú nýstárlega leið var snemma rædd að fara með kröfurnar í fjöldagöngu frá Sjómannaskólanum og að Kjarvalsstöðum, þar sem fundur var ákveðinn með Agli Skúla Ingibergssyni borgarstjóra. Tryggð var þátttaka annarra félaga fatlaðra og kjörorð göngunnar ákveðið: Jafnrétti. Fremstur í flokki göngumanna fór Magnús Kjartansson fyrrverandi ráðherra í hjólastól, og margir hafa haft á orði að það hafi verið hart að þurfa að fá ráðamann í raðir fatlaðra til þess að á yrði hlustað. Það var því talsverð glíma sem Jóhann Pétur Sveinsson átti í er hann var beðinn að setjast í sæti sem reiknað var með að gæfi þingsæti, en niðurstaða hans var að beita sér frekar sem formaður Sjálfsbjargar en að gerast þátttakandi í landsmálapólitík.

Skemmst er frá því að segja að jafnréttisgangan var stórsigur hvað varðar þátttöku í baráttu fatlaðra. Um tíu þúsund manns tóku þátt í henni, bæði fatlaðir og fulltrúar verkalýðsfélaga, sem komu til liðs við fatlaða í baráttunni. Kröfurnar sem færðar voru borgarstjórn vörðuðu einkum atvinnumál, húsnæðismál, samgöngumál og heilbrigðismál. Nefna má tillögu um að virða í verki lögboðinn forgang fatlaðra til starfa og gera það að stefnumáli hjá borginni. Einnig komu fram fjölmargar og vel útfærðar tillögur til að lagfæra aðgengismál í borginni, meðal annars með breytingum á gangstéttum og ýmsum byggingum. Að sumu leyti var þarna lagður grunnur að endurbótum í umhverfi borgarinnar og byggingum en borgin hefur tekið mjög myndarlega á þeim málum. Sífellt fleiri gangstéttir eru þannig úr garði gerðar og flái hentar hjólastólum og þeim sem eiga erfitt með gang.

skjafnrettisganga

 

Jafnréttisgangan og fundurinn í kjölfarið voru mikill viðburður. Ávörp voru flutt og í kjölfar fundarins voru skipaðar nefndir til að vinna að því að mæta kröfum fatlaðra.