Alþjóðadagur fatlaðra

Alþjóðadagur fatlaðra var haldinn hátíðlegur á Íslandi í fyrsta sinn þann 28. mars árið 1965. Hann var fyrst haldinn hátíðlegur erlendis árið 1960.  Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur á þremur stöðum á landinu: Akureyri, Ísafirði og Reykjavík. Í Reykjavík var haldið upp á daginn í Sigtúni og sýnishorn af hjálpartækjum fyrir fatlaða sýnd, sum mjög nýstárleg, til dæmis tæki sem gátu létt einhentum húsmæðrum heimilisstörf.

Næsta ár var dagurinn helgaður umferðahindrunum sem fatlaðir þurfa að yfirstíga og síðan voru fjöldamörg málefni fatlaðra tekin fyrir á deginum og margvíslegar aðferðir notaðar til þess að koma boðskapnum á framfæri.

skferlilandsbankÍ árabil nýtti Sjálfsbjörg daginn til þess að veita viðurkenningar og vekja athygli á góðu aðgengi fyrir fatlaða. Slagorð Sameinuðu þjóðanna ,,Ekki tala um okkur, án okkar” var meðal annars yfirskrift dagsins sem var haldinn hátíðlegur 3. desember árið 2004. Þá benti þ.v. formaður Sjálfsbjargar, Ragnar Gunnar Þórhallsson á að slæmt aðgengi gæti haft víðtæk áhrif á möguleika fatlaðra til þátttöku í samfélaginu, ennþá, þrátt fyrir þær úrbætur sem gerðar hefðu verið víða. Við sama tilefni kynnti Ásgeir Eiríksson þáverandi framkvæmdastjóri Strætó bs. að frá og með árinu 2005 væri skylda að hafa almenningsvagna aðgengilega fyrir fatlaða. Skábraut og hjólastólabúnaður yrði framvegis í öllum nýjum bílum sem keyptir yrðu. Þá yrðu þeir jafnframt lággólfsvagnar, ekkert þrep upp í vagnana. Þetta hefur að mestu gengið eftir, en ennþá (2019) eru alls ekki allir strætisvagnar á höfuðborgarsvæðinu svona útbúnir og talsvert skortir á að allar stoppistöðvar vagnanna séu aðgengilegar.