Hala-leikhópurinn

Halaleikhópurinn er hópur áhugafólks um leiklist og samanstendur af fötluðum og ófötluðum einstaklingum. Hópurinn á aðild að Bandalagi íslenskra leikfélaga (BÍL). Sjálfsbjörg hefur lagt hópnum til æfingar- og sýningarhúsnæði í ,,Halanum” – löngu og mjóu rými sem er á jarðhæð Sjálfsbjargarhússins (húsnæði þar sem Össur hf. átti sín fyrstu ár).

Halaleikhópurinn var stofnaður 27. september 1992 með það að markmiði að iðka leiklist fyrir alla án tillits til fötlunar, aldurs, kynþáttar eða annars. Hópurinn hefur starfað óslitið síðan.

Fílamaðurinn, sem Halaleikhópurinn setti upp árið 2004 vakti mikla athygli og þótti sýningin mjög góð.

Leiklistarnámskeið var haldið árið 2005 og var þá leitað að nýjum félögum til að ganga til liðsinnis við eldri Halaleikara. Í framhaldinu var sett upp leikritið Kirsuberjagarðurinn eftir Tsjékov.

Leikárið 2007-2008 var sýning Halaleikhópsins á Gaukshreiðrinu valin athyglisverðasta áhugamannasýning leikársins. Þessi heiður var forsvarsfólki hópsins að vonum mikið ánægjuefni. Ása Hildur Guðjónsdóttir þá formaður leikhópsins sagði í viðtali af því tilefni að hópurinn hefði fengið mjög góðar umsagnir árin á undan og verið í hópi fimm bestu hópanna áður en honum hlotnaðist þessi heiður. En ekki gekk það baráttulaust: ,,Þegar við hófum sýningar á verkinu,” segir Ása í sama viðtali, ,,þá reyndum við ítrekað að komast að í fjölmiðlum, en fengum engin viðbrögð. Þeir birtu ekki einu sinni fréttatilkynningar frá okkur. En um leið og ljóst var að við höfðum orðið fyrir valinu sem áhugaverðasta leiksýning áhugahóps, þá komumst við í alla fjölmiðla.” Viðurkenningin var því enn kærkomnari þar sem verið var að ryðja brautina fyrir framtíð hópsins. Þjóðleikhúsið hefur verið hópnum innan handar og meðal annars bætt aðgengi verulega í tengslum við sýningu hópsins á verkinu þar 4. júní 2008. Fram að því hafði það verið sýnt í Halanum.

Í byrjun 60 ára afmælisárs Sjálfsbjargar tók Halaleikhópurinn til sýninga leikritið ,,Ástandið – sögur kvenna frá hernámsárunum“ eftir Sigrúnu Valbergsdóttur og var góð mæting.