Félagslíf félaganna

Fáum blandast hugur um mikilvægi félagsstarfsins sem fram fór á vegum Sjálfsbjargarfélaganna um allt land. Einstök félög hafa verið burðarásinn í félagsstarfsemi Sjálfsbjargar og margt með líku sniði enda miðluðu félögin af reynslu sinni bæði í ritinu Sjálfsbjörg, einnig á landsþingum og í ferðalögum. Jafnvel var snemma stungið upp á að stíga skrefinu lengra í samstarfinu og miðla efni og góðum hugmyndum á milli sín. Emil Andersen getur þessa þegar á fyrsta árinu og Þorgeir Jónsson vill ári síðar að félögin taki nýjustu tækni, sem þá (1960) var til taks, í sína þjónustu.

,,Í sambandi við þetta, vil ég stinga upp á því, að hin einstöku félög eignist segulbandstæki til upptöku á ýmis konar skemmti- og fræðsluefni, sem þætti þess vert, að taka það upp á segulband á skemmtifundum í félögunum, svo sem söng, upplestur, smáleikþætti, erindi o.fl. Þessi segulbönd eða spólur yrðu svo látnar ganga á milli félaganna á víxl.”

skfondurkarlmenn

Mynd: Föndurnámskeið voru haldin víða um land og þátttakendur á öllum aldri og af báðum kynjum. Hér eru þeir Sigurður Einarsson og Einar Jónsson sem voru meðal fjórtán þátttakenda á námskeiði í Reykjavík árið 1961 en þátttakendur komu víðar að af landinu en höfuðborgarsvæðinu.

(Textahöfundur: Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2009)