Saga Sjálfsbjargar – Félagslífið

skferdalag

 

Erfitt er að setja sig í spor þess fólks sem bjó við hvað mesta einangrun vegna fötlunar sinnar þegar Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, var stofnað. Sumir bjuggu á elliheimilum og voru nánast gleymdir þar, aðrir bjuggu við einangrun vegna óviðunandi ferlimála. Viðhorfin til fatlaðra hafa einnig haft sitt að segja, því ekki virðist mikið hafa verið hvati til að bæta úr fyrr en fatlaðir tóku málin í sínar hendur. Sjálfsbjargarfélögin hafa sinnt félagsmálum af miklum krafti frá fyrstu tíð. Fyrir suma var þetta fyrsta þátttaka í skipulögðu félagslífi um ævina. Spilakvöld, skemmtifundir og alls kyns viðburðir fylltu veturna lífi og á sumrin var haldið í ferðalög og Sjálfsbjargarfélagar frá öllum landhornum hittust og lentu í ýmsum ævintýrum, bæði blindbyl á Jónsmessu á Vestfjörðum og blíðasta sumarveðri. Sumir vöktu heilu næturnar meðan aðrir tjölduðu í hæfilegri fjarlægð frá glaumnum og gleðinni. Fjörlegar frásagnir er að finna í Sjálfsbjargarblaðinu af þessum ferðum og fjölmargar myndir sem rifja upp stemminguna.

Þótt félagslíf á vegum Sjálfsbjargar færi fyrst og fremst fram á vegum félaganna sjálfra,  sáu landssamtökin um að halda árlegt þing og síðar á tveggja ára fresti. Ferðalögunum, sem flest félög landssamtakanna tóku þátt í, eru gerð skil í sérstökum undirkafla á þessari síðu.

Á síðustu árum hafa ýmis aldurstengd eða áhugamálatengd félög haldið uppi öflugu félagsstarfi á vegum Sjálfsbjargar. Í Reykjavík sér BUSL um unglingastarfið, ungt fólk finnur sér farveg fyrir skemmtun og aðgerðir í Ný-ung og leiklistarfólk hefur náð góðum árangri með Hala-leikhópnum.

(Textahöfundur: Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2009)