Önnur félög og samvinna

Eitt af því sem Sjálfsbjörg beitti sér og hefur unnið að frá upphafi er efling og samstaða meðal fatlaðra innan lands og utan. Í markmiðsgrein fyrstu laga samtakanna stendur um það efni:

  • að efla samstarf við önnur öryrkjasamtök innan lands og utan.

Þetta gekk eftir. Samtökin áttu frumkvæði að því að Öryrkjabandalag Íslands var stofnað árið 1961 og fór þar fremst í flokki ritari Sjálfsbjargar, Ólöf Ríkarðsdóttir, sem síðar (1994-1998) varð formaður bandalagsins. Árið 1963 gerðist Sjálfsbjörg fullgildur aðili að norrænu samstarfi fatlaðra, Nordisk Handikap Förbund (NHF), sem þá hét Vanföras Nordiska Invalidorganisation og hefur starfað með þeim til dagsins í dag.

Mynd: Sigursveinn D. Kristinsson og Ólöf Ríkarðsdóttir ásamt norrænum félögum úr V.N.I. 1969.

Mynd: Sigursveinn D. Kristinsson og Ólöf Ríkarðsdóttir ásamt norrænum félögum úr V.N.I. 1969.

 

Snemma var rætt um gildi íþróttaiðkunar fyrir fatlaða. Árið 1969 má lesa í blaði Sjálfsbjargar eftirfarandi pistil um íþróttaiðkun fatlaðra á Ísafirði:

,,Fatlað fólk getur stundað ýmsar íþróttir og hafa meira að segja verið haldnir Olympíuleikar fyrir fatlaða – nú síðast í Ísrael dagana 4.-13. nóvember 1968. Þátttakendur voru um eitt þúsund frá 29 löndum og flestir í hjólastólum. Þar var til dæmis keppt í skylmingum, lyftingum, billiard, spjótkasti, sleggjukasti, sundi, körfubolta og fleiru.

Hér á landi hafi íþróttir lítið verið stundaðar meðal fatlaðra. Þó er mér [P.S. höfundur greinarinnar mun vera ritnefndarkonan Pálína Snorradóttir] kunnugt um, að Sjálfsbjörg á Ísafirði fékk sértíma í Sundhöllinni fyrir félaga sína, þar sem þeir gátu iðkað þessa hollu íþrótt. Ættu fleiri deildir að athuga möguleika á slíku. Þá er borðtennis mjög vinsæl íþróttagrein meðal fatlaðra erlendis og stofnkostnaður ekki mikill. Nú eiga svo margar deildir eigið húsnæði, að ef áhugi væri fyrir hendi, ætti að vera hægt að koma einu borðtennisborði fyrir.”

Stofnun Íþróttasambands fatlaðra þann 30. maí 1974 var mikilvægt skref í félagamálum fatlaðra, sem Sjálfsbjörg hafði frumkvæði að ásamt ÍSÍ.

Í Sjálfsbjargarblaðinu árið 1973 segir Sigurður Magnússon hjá ÍSÍ um aðdragandann:

,,Fljótlega að loknu Íþróttaþingi 1972 skipaði ÍSÍ undirbúningsnefnd, til að vinna að frekari framvindu málsins [stofnun íþróttafélags fatlaðra]. Eiga sæti í nefndinni auk undirritaðs, Guðmundur Löve framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins og Trausti Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar.

Þar sem hér er um algert brautryðendastarf að ræða, þarf eðlilega að huga að mörgum hlutum og yfirstíga margvísleg vandamál áður en hafizt verður handa um íþróttiðkanirnar sjálfar.

Undirbúningsnefndin valdi þann kost að byrja á því að kynna málið fyrir samtökum öryrkja víðsvegar um landið. Var það gert bréflega, en jafnframt hefur málið verið kynnt á fundum.

Það er skoðun undirbúningsnefndar, að æskilegt sé að byrja á fáum íþróttagreinum, og raunar að miða við þær aðstæður, sem hægt er að láta í té og fyrir hendi eru. Við töldum eðlilegt, miðað við allar aðstæður, að íþróttagreinarnar sund, lyftingar, bogfimi og blak yrðu fyrir valinu fyrst. En að sjálfsögðu koma margar aðrar íþróttir til greina, þegar aðstæður skapast og nokkur reynsla er fengin.

Sérstakar leikreglur gilda um íþróttaiðkanir fyrir fatlaða …

Jafnframt er svo nauðsynlegt að fá til starfa sjúkraþjálfara eða íþróttakennara, sem gætu tekið að sér kennslu og leiðbeinendastörf, ekki aðeins gagnvart iðkendum sjálfum, heldur þyrftu þeir einnig að geta þjálfað aðstoðarfólk, sem verður að vera til staðar, svo að starfsemin geti gengið vel.”

Mynd: Frá íþróttamóti fatlaðra, keppt var í ,,krullu" (curling) árið 1975. Sitjandi frá vinstri: Ragnar Hallsson, Viðar Guðnason, Arnór Pétursson. Standandi frá vinstri: Jóhann Briem, Sverrir Friðþjófsson, Sigurður Magnússon, Tómas Magnússon, Ragnar Þórhallsson, Rafn Sigurðsson, Grétar Felixson og Júlíus Arnarson.

Mynd: Frá íþróttamóti fatlaðra, keppt var í ,,krullu” (curling) árið 1975. Sitjandi frá vinstri: Ragnar Hallsson, Viðar Guðnason, Arnór Pétursson. Standandi frá vinstri: Jóhann Briem, Sverrir Friðþjófsson, Sigurður Magnússon, Tómas Magnússon, Ragnar Þórhallsson, Rafn Sigurðsson, Grétar Felixson og Júlíus Arnarson.

 

Lionsklúbburinn Þór studdi við bakið á stofnun félagsins með því að gefa tæki til félagsins. Þann 17. maí 1979 fékk Íþróttasamband fatlaðra síðan aðild að ÍSÍ og var þá íþróttaiðkun fatlaðra viðurkennd sem jafngild þeim íþóttum sem önnur aðildarfélög Íþróttasambandsins stunduðu.

Félagið hafði aðstöðu í Sjálfsbjargarhúsinu þar til þeirra eigið hús reis norðan við Hátún 12 – nú Hátún 14. Þátttaka Sjálfsbjargarfélaga í íþróttakeppni heima og erlendis hefur verið eftirtektarverð.