Endurhæfing

Frá upphafi var sjónum beint að endurhæfingu fatlaðra og í markmiðsgrein fyrstu laga Sjálfsbjargar segir:

    • að koma upp þjálfunarstöðvum fyrir fatlað fólki úti um land, þar sem slíkar stöðvar eru ekki fyrir hendi.

Snemma var farið að huga að því að efla möguleika til endurhæfingar á vegum Sjálfsbjargar. Áður hafði endurhæfing meðal annars verið á vegum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra að Sjafnargötu 14 í fremur óhentugu húsnæði, en þar var þó að finna sundlaug og fleira er gerði aðstöðuna þar betri en ella hefði verið. Eftir því sem Sjálfsbjörg efldi sína endurhæfingaraðstöðu komst á sú verkaskipting meðal félaganna að Styrktarfélagið einbeitti sér að endurhæfingu barna, en Sjálfsbjörg sá um þjónustu við fullorðna fólkið. Í því skyni styrkti félagið sjúkraþjálfara til náms með þeim skilyrðum að viðkomandi ynni fyrir samtökin að minnsta kosti í hálft ár eftir námið hér heima. Þetta fyrirkomulag skilaði góðum árangri.

Árið 1964 ályktaði landssambandið að ráða kennara í tómstundaiðju, sjúkraþjálfara sem geti ferðast á milli félagsdeilda og í tengslum við  áframhald á uppbyggingu vinnustofa víðs vegar um landið. Vinnustofurnar sem verið var að byggja upp af aðildarfélögum Sjálfsbjargar víða um landið. Þetta tókst m.a. með framlögum úr Erfðafjársjóði, en vinnustofurnar gegndu  þeim hlutverkum að veita starfsfólki (Sjálfsbjargarfélögum) vinnu, tækifæri til að afla þeim tekna, veita þeim félagsskap og stytta þeim stundir. Sama ár fór fulltrúi Sjálfsbjargar, Ólöf Ríkarðsdóttir, í heimsókn til Norðurlanda og kom með nýja sýn á atvinnumöguleika fatlaðra úr þeirri ferð:

,,Eftirtektarverðar voru einnig umræður um stöðuval fatlaðra, en á því sviði hafa orðið miklar breytingar á síðari árum. Kemur þar aðallega tvennt til greina, í fyrsta lagi endurhæfing fatlaðra og í öðru lagi hin mikla vélvæðing og vaxandi tækni, sem gjörir jafnvel mikið fötluðu fólki kleift að leysa af hendi starf, sem áður var útilokað.”

Mynd: Frá opnun sundlaugar Sjálfsbjargar ári 1981 - Svavar Gestsson félagsmálaráðherra í ræðustól.

Mynd: Frá opnun sundlaugar Sjálfsbjargar ári 1981 – Svavar Gestsson félagsmálaráðherra í ræðustól.

 

Með nýjum lögum um endurhæfingu segir frá því í riti Sjálfsbjargar árið 1970 að Akureyringar hyggist gera átak í tengslum við endurhæfinguna sem var á Bjargi:

,,Í framhaldi af endurhæfingarlögunum er mér ánægja að geta þess, að Sjálfsbjörg á Akureyri vinnur nú að stofnun endurhæfingarstöðvar og er sá undirbúningur vel á veg kominn. Kiwanisklúbburinn Kaldbakur mun styrkja félagið til tækjakaupa og sjúkraþjálfari hefur verið ráðinn. Er þetta fyrsta félagið innan landssambandsins, sem kemur slíkri stöð á stofn, en vafalaust munu hin fljótlega fylgja í kjölfarið, því að þörfin er brýn.”

Lög þau sem vísað er til gáfu möguleika á að koma upp vinnustöðum fyrir öryrkja og voru veittir styrkir og lán úr Erfðafjársjóði og atvinnuleysistryggingasjóði sem gátu tryggt allt að 80% stofnkostnaðar.

Opnun sundlaugar í Sjálfsbjargarhúsinu var ekki síst mikilvæg vegna þeirrar endurhæfingar sem mögulagt var að sinna í lauginni. Kristín Erna Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari ritaði í Sjálfsbjargarblaðið árið 1979: ,,Í sundlaug má nýta hina ýmsu eiginleika vatnsins á margar hátt og fyrir hreyfihamlaða er hér um að ræða eitt besta hjálpartæki sem völ er á.” Þá var hafin vinna við byggingu sundlaugarinnar sem tekin var síðan í notkun árið 1981.

Á vegum Sjálfsbjargar hefur uppbygging endurhæfingar aðallega átt sér stað í Reykjavík og á Akureyri og á báðum stöðum hefur öflug endurhæfing átt sér stað fram til dagsins í dag. Víða áttu Sjálfsbjargarfélög frumkvæði að og ráku á nokkrum stöðum vinnustaði fyrir fatlað fólk.