Búseta

,,Ég minnist þess, þegar ég fyrir hálfum öðrum áratug lá á sjúkrahúsi í Reykjavík. Hafði verið þar um nokkurn tíma til rannsóknar. Einn morguninn var mér tilkynnt, að hér gæti ég ekki verið lengur og sama dag yrði ég fluttur á elliheimili. Er þangað kom var ég settur á fjögurra manna stofu. Stofufélaga mína hafði ellin leikið grátt og voru þeir allir rúmliggjandi. Mér gekk illa að sofna þetta kvöld og ýmsar spurningar leituðu á hugann. – Átti þetta að verða heimili mitt allt lífið, aðgerðarlaus, einskis að vænta, aðeins bíða – en hvers?
Þó nokkrir félagar okkar eru í sömu aðstæðum og ég var þá. Þær aðstæður breytast ekki fyrr en Vinnu- og dvalarheimilið er fullbyggt. En þá mun líka sýna sig, að allt fatlað fólk getur eitthvað unnið sjálfu sér og þjóðfélaginu til gagns.”

Þessi orð Theodórs A. Jónssonar annars formanns Sjálfsbjargar, úr setningarræðu hans á 10. þingi sambandsins árið 1968 eru aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um þær aðstæður sem fatlaðir bjuggu við, á sjúkrahúsum, elliheimilum, við óviðunandi aðstæður einangraðir í heimahúsum og jafnvel á geðsjúkrahúsum.

Mynd: Sjálfsbjargarhúsið í byggingu en það gerbreytti búsetuúrræðum fyrir fatlaða

Mynd: Sjálfsbjargarhúsið í byggingu en það gerbreytti búsetuúrræðum fyrir fatlaða

 

Það var ekki að ástæðulausu að byggingamálin brunnu heitt á félögunum í Sjálfsbjörg strax fyrstu árin.  Margir fleiri en Theodór bjuggu við óviðunandi aðstæður og í tímariti Sjálfsbjargar árið 1963 var sérstaklega fjallað um hagi nokkurra einstaklinga sem biðu í ofvæni eftir betri úrræðum í búsetumálum. Rannveig Guðmundsdóttir var ein þeirra, en hún fluttist á elliheimilið Grund þegar hún var 52 ára. Ástæðan var sú að hún hafði þjáðst af heiftugri liðagigt frá tólf ára aldri og hafði ekki ,,stigið frískum fæti á jörð síðan,” eins og hún sagði í viðtali við blaðið. Þegar hér var komið sögu var hún að nálgast sjötugt og bjó enn á Grund, þar sem faðir hennar var einnig heimilisfastur. Sigurgrímur Ólafsson úr Reykjavík var kominn á Sólvang í Hafnarfirði um sama leyti, en hafði hrakist á milli sjúkrahúsa um nokkurt skeið, enda var þá hámarkstími sem sjúklingur mátti vera á hverju sjúkrahúsi fjórir mánuðir. Sjúklingar réðu engu um hvert þeim var þá ráðstafað og Sigurgrímur líkti aðstæðum fatlaðra í sömu stöðu og hann var við hreppaflutninga fyrri tíma.