Atvinnumálin

,,Bezta lausnin á atvinnumálum fatlaðra er að starfskraftar okkar verði nýttir í almennum atvinnurekstri eða þjónustu eins og annarra þegna þjóðfélagsins, eftir því sem orka okkar og aðstæður leyfa.
Atvinnuveitendur  eru þó haldnir nokkurri tortryggni gegn fötluðu fólki. Þeim hættir til að líta á okkur eins og gallaða vöru, ef okkur vantar hönd eða fót.”

Þannig mæltist Sigursveini D. Kristinssyni í fyrsta riti Sjálfbjargar árið 1959. Ávallt hefur verið lögð mikil áhersla á að fatlaðir eigi rétt á því að starfa við jafn fjölbreytt störf og ófatlaðir, en lengi framan af háði það þeim hversu lélegan aðgang fatlaðir höfðu að skólagöngu og réðu þar bæði aðgengismál, skortur á úrræðum fyrir þá sem þurftu að dvelja langdvölum á sjúkrahúsum og almenn fáfræði. Þrátt fyrir þetta meginsjónarmið var það eitt fyrsta hlutverk Sjálfsbjargarfélaganna út um allt land að tryggja félögum sínum, sem ekki áttu aðkomu að almennum vinnumarkaði, vinnu á sérstökum vinnustöðum sem aðildarfélögin víða um land settu á stofn. Víða var þrekvirki unnið við að koma upp húsnæði fyrir þessar vinnustofur og oft var sýnd mikil útsjónarsemi í vali á verkefnum sem unnið var við. Á Siglufirði var ein fyrsta vinnustofa Sjálfsbjargarfélaga og þar unnu fjórar stúlkur við að sauma vinnuvettlinga, en á Akureyri var lengi plastiðja á vegum Sjálfsbjargar þar í bæ, svo nefnd séu tvö ólík dæmi.  Eins má geta Vinnuvers á Ísafirði.

Mynd: Vinnuver á Ísafirði

 

Í fyrstu lögum Sjálfsbjargar voru þessi ákvæði um hvernig ætti að leggja atvinnumálum fatlaðra lið:

• að aðstoða fatlað fólk til þess að leita sér þeirrar vinnu sem það er fært um að leysa af hendi í atvinnurekstri eða þjónustu.
• að stuðla að því að félögin geti komið upp félags- og vinnuheimilum fyrir samtökin, hvert á sínu félagssvæði, og með því bætt aðstöðu fatlaðs fólks til félagslífs og atvinnu.

Árið 1968 var skyndilegt samdráttarskeið í íslensku samfélagi og sá árangur sem náðst hafði í atvinnumálum fatlaðra frá stofnun Sjálfsbjargar var í hættu. Bjarni Einarsson bæjarstjóri á Akureyri skrifar það ár leiðara í tímarit Sjálfsbjargar og kemst svo að orði:

,,Nú, að loknum mestu velsældarárum í sögu þjóðarinnar, eru nokkrar blikur á lofti, sem boða vaxandi erfiðleika á næstu árum. En þeir erfiðleikar eiga að stæla þróttmikið fólk til átaka. Hretin eiga ævinlega sinn endi. Hinn hrausti, heilbrigði og duglegi Íslendingur nútímans ætti því ekki að þurfa að kvíða framtíð sinni. Hins vegar eru meðal þjóðarinnar stórir hópar fólks, sem af hendi náttúrunnar eða vegna sjúkdóma og slysa hafa ekki jafna aðstöðu til lífsbaráttu og almenningur, sízt á þeim þrönga vinnumarkaði, sem virðist munu ríkja næstu ár. Það samrýmist réttlætiskennd íslenzku þjóðarinnar að reyna að jafna þann aðstöðumun, sem líkamleg örorka veldur. Tryggingakerfi okkar á að sjá um að fólk líði ekki skort. En það er ekki það, sem öryrkjar biðja um, heldur fyrst og fremst tækifæri til að geta verið jafngildir þegnar þjóðfélagsins og geta lagt sitt af mörkum því til uppbyggingar. Og þó erfiðlega gangi í svipinn að halda fullri atvinnu í landinu, verður því ekki trúað að það ástand verði varanlegt. Hér er svo margt ógert og hendurnar svo fáar. Því getum við ekki, þegar til lengdar lætur, misst neina starfhæfa hönd.”

Skilaboðin í orðum Bjarna eru enn í fullu gildi, þótt tungutakið sé barn síns tíma. Krafan um fulla vinnu fatlaðra, bæði á þenslutímum og samdráttarskeiðum, rímar vel við þær áherslur sem Sjálfsbjörg hefur ávallt haldið á lofti og Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig lagt ríka áherslu á t.d. með tilkomu Samnings Sameinuðu Þjóðanna um Rréttindi Fatlaðs fólks. Hins vegar má aldrei gleyma því að tryggja sómasamlega lífsafkomu þeirra sem enn standa ef til vill höllum fæti á vinnumarkaðnum m.a. vegna fákunnáttu og fordóma margra atvinnurekenda.

Þremur árum síðar (1971), er Magnús Kjartansson settist í stól félagsmálaráðherra, bætir hann um betur og segir:

,,Í iðnvæddu nútímaþjóðfélagi þarf að vinna hin margvíslegustu störf, og það á að verða æ auðveldara að tryggja fötluðu fólki arðbær verkefni við hlið annarra þegna. Hagfróðir menn hafa reiknað það út, að slík hagnýting á vinnuafli borgi sig þjóðhagslega séð; arðurinn af vinnu fatlaðs fólks nemi mun hærri upphæð en sú aðstoð, sem þjóðfélagið veitir til þess að gefa því kost á störfum. Sízt er ástæða til að vanmeta svo óvenjulega geðþekkar hagfræðiröksemdir, en við þær bætast einnig mannleg og félagsleg viðhorf. Þátttaka í verkefnum þjóðfélagsins veitir lífsgleði og fullnægingu, og það er verkefni hvers skipulagðs þjóðfélags að tryggja sem flestum slík lífsskilyrði.”

Þrátt fyrir skilning velviljaðra ráðamanna hefur það verið hlutskipti Sjálfsbjargar í áranna rás að halda umræðunni um atvinnuþátttöku fatlaðra vakandi og enn er staðan sú að fatlaðir eiga undir högg að sækja á vinnumarkaði. Einnig hefur það flækt baráttuna að lengst af hafa atvinnutekjur fatlaðra skert tekjur þeirra og þótt skref hafi verið tekin í átt til minni skerðingar er hún enn við lýði.