Saga Sjálfsbjargar – Baráttumálin
Baráttumál Sjálfsbjargar hafa frá fyrstu tíð markast af aðstæðum fatlaðra eins og þau voru á hverjum tíma. Þótt mikill árangur hafi náðist í baráttumálunum og mörg þrekvirki hafi verið unnin frá upphafsárunum má sjá enduróm af fyrstu kröfum landsamtakanna allt fram á þennan dag. Í fyrstu lögum Sjálfsbjargar var markmið samtakanna skilgreint með þessum hætti og endurspegla þau vissulega áherslurnar sem þá voru uppi:
Hlutverk sambandsins er að hafa forystu í baráttu fatlaðs fólks fyrir auknum réttindum og bættri aðstöðu í þjóðfélaginu meðal annars með því:
- að veita félögum innan sambandsins og fötluðum einstaklingum utan sambandsins jafnt og innan þess þá fyrirgreiðslu og hjálp sem það getur í té látið.
- að koma á fót og starfrækja félagsheimili, þar sem starfsemi sambandsins geti farið fram.
- að styðja fatlað fólk til þess að afla sér þeirra menntunar, bóklegrar eða verklegrar, sem það hefur löngun og hæfileika til.
- að aðstoða fatlað fólk til þess að leita sér þeirrar vinnu sem það er fært um að leysa af hendi í atvinnurekstri eða þjónustu.
- að stuðla að því að félögin geti komið upp félags- og vinnuheimilum fyrir samtökin, hvert á sínu félagssvæði, og með því bætt aðstöðu fatlaðs fólks til félagslífs og atvinnu.
- að koma upp þjálfunarstöðvum fyrir fatlað fólki úti um land, þar sem slíkar stöðvar eru ekki fyrir hendi.
- að vinna að bættri löggjöf um málefni fatlaðs fólks.
- að efla samstarf við önnur öryrkjasamtök innan lands og utan.
Þótt ferlimálanna sé ekki sérstaklega getið í þessum markmiðsgreinum urðu þau fljótlega meðal helstu baráttumála sambandsins. Félagsheimili, það sem vísað er til í 2. markmiðsgreininni varð fljótlega að draumsýninni um dvalarheimili, íbúðir og félagsheimili Sjálfsbjargar og unnið var að því markvisst frá fyrstu tíð að afla fjár til þess verkefnis.