Húsnæðismál ,,Allir þurfa þak yfir höfuðið”

Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra vill að ALLIR geti ráðið því sjálfir, hvar og í hverskonar húsnæði þeir búa. Húsnæði þarf að vera þannig úr garði gert að fólk geti búið í því frá vöggu til grafar, þó svo að það fatlist einhverntíma á lífsleiðinni.
Jafnt fatlaðir sem ófatlaðir eigi heima í almennum íbúðahverfum. Öll höfum við einhverjar sérþarfir sem ber að uppfylla. Því verður að gera þá kröfu til þjóðfélagsins að það þjóni hagsmunum allra þegna sinna.
Endurhæfing fatlaðra og afturkoma þeirra til aðbærrar vinnu og lífs er oft bundin því að geta snúið til baka til þjóðfélags sem hægt er að komast um án hindrana.
Þeir kostir, sem boðið er upp á í húsnæðismálum, verða að ýta undir sjálfstætt líf hins fatlaða einstaklings. Jafnframt verður að tryggja, að nauðsynleg þjónusta sé veitt.
Kjarni stefnu Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra í þessum málaflokki felst í hugtakinu ,,blöndun” . Með blöndun er átt við að fatlaðir eigi heima innan um ófatlaða. Til þess að þetta megi takast verður að uppfylla ákveðnar kröfur:

  • Húsnæði verður að vera aðgengilegt.
  • Skipulag þarf að vera í lagi.
  • Grundvallarþjónusta þarf að vera fyrir hendi.
  • Sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins verður að sitja í fyrirrúmi.